Fyrirlestur Árna Þorsteinssonar sem fluttur var á mánudaginn í síðustu viku þegar Samfélagssjóður Alcoa afhenti Starfsendurhæfingu Austurlands styrk upp á 8,9 milljónir króna.
Kæru vinir,
Þegar ég var beðinn um að segja nokkur orð við þetta tækifæri fór gamalkunnur fiðringur um magann. Tilfinning sem hafði hreiðrað um sig fyrir svo löngu og vildi ekki hverfa vegna þess að ég kunni ekki að vinna á henni. En nú hvarf tilfinningin eins og dögg fyrir sólu og glaður ákvað ég að verða við beiðninni og segja fáein orð fyrir mína hönd og míns kæra hóps. Hversvegna skyldi nú kvíðinn hafa gufað svona skyndilega upp?
Jú, vegna þess að ég er í endurhæfingu með yndislegu fólki og er að ná árangri. Ástæðan fyrir þátttöku minni í þessari vinnu er sú, að ég hafði verið án atvinnu í nokkra mánuði og var horfinn inn í ansi dimma veröld þunglyndis og vonleysis. Reyndar var ég búinn að glíma við þennan draug frá tvítugsaldri en steininn tók fyrst úr veturinn 2007 – 2008. Þá er það á útmánuðum 2008 að ég fæ símtal. Í símanum var frelsandi engill að nafni Erla Jónsdóttir sem bauð mér að taka þátt í starfsendurhæfingu sem hún var að koma á fót. Að sjálfsögðu fékk ég kvíðahnút í magann og var ekki, að mér fannst, tilbúinn í þennan slag. Það var svo miklu einfaldara og þægilegra að vera lokaður inni í sinni skel og hafa hana læsta. En sem betur fer kom brestur í skelina, ég skreið út og stend nú hér og hef aldrei liðið betur.
Þeir einstaklingar sem byrjuðu með mér eru eins misjafnir og þeir eru margir. Við höfum öll glímt við erfið veikindi, andleg sem líkamleg, afleiðingar slysa og neyslu. En saman myndum við heild sem við erum ákaflega stolt af í dag. Við upplifðum eflaust flest höfnun og fordóma vegna þekkingarleysis fólks á veikindum okkar. Við vissum jafnvel ekki sjálf hvað gekk að okkur.
Það var ekki upplitsdjarfur hópur sem kom saman í fyrsta sinn síðla vetrar 2008. Hvað vorum við eiginlega búin að koma okkur í? Fæstir þekktust nokkuð, það tók því talsverðan tíma að læra nöfnin og kynnast. Og þvílíkt mannval sem ég hef kynnst.
Hver og einn í þessum hópi er einstakur á sinn hátt. Kraftur og gleði einkennir hópinn, samkennd og umhyggja gagnvart náunganum. Hlakka ég til á hverjum morgni að hitta fólkið mitt sem ég leyfi mér að kalla svo.
Það frábæra starf sem Erla er að vinna með sínu fólki er svo sannarlega að skila sér. Við erum í bóklegu námi, á verklegum námskeiðum og hlýðum á fyrirlestra um geðræna sjúkdóma. Við stundum hreyfingu og förum saman í gönguferðir og á kaffihús. Þrátt fyrir mikilvægi hins félagslega þáttar, samvinnu og samstöðu er markmiðið að sjálfsögðu að efla einstaklinginn og hjálpa honum út í lífið aftur til náms eða starfs. Þá get ég ekki látið hjá því líða að minnast á þau jákvæðu áhrif sem bati okkar hefur á fjölskyldur okkar og vini. Þar tala ég af reynslu og á þetta eflaust við um fleiri í okkar hópi.
Kæru vinir,
Við höfum öll skyldum að gegna gagnvart ástvinum okkar, samfélaginu og síðast en ekki síst gagnvart okkur sjálfum. Það er einnig skylda okkar að taka með gleði og áhuga á móti því sem Starfsendurhæfing Austurlands hefur upp á að bjóða. Þannig eflumst við sem einstaklingar, hoknir af reynslu en með bakið beint. Að síðustu vil ég fyrir hönd hópsins míns þakka Erlu og hennar fólki fyrir að vera það sem þau eru, einnig vil ég þakka frábærum kennurum fyrir þeirra leiðsögn og skemmtilegar samverustundir sem við eigum eftir að minnast með söknuði en jafnframt gleði.
Kærar þakkir.