StarfA aftur til starfa

Starfsfólk Starfsendurhæfingar Austurlands er mætt til vinnu eftir sumarfrí og er til viðtals á skrifstofum StarfA í Fjarðabyggð, Fljótsdalshéraði og Höfn í Hornafirði. Starfsendurhæfingin hefst síðan í byrjun næstu viku en þátttakendur verða látnir vita hvar og hvenær þegar nær dregur.

Starfsendurhæfing Austurlands í sumarfrí

Veturinn var annasamur hjá Starfsendurhæfingu Austurlands og sumarfríið því kærkomið. „Slúttað“ var með glæsibrag á Fljótsdalshéraði og í Fjarðabyggð fyrr í mánuðinum. Á Fljótsdalshéraði var farið út að borða og síðan var kíkt á menningarlífið í Sláturhúsinu þar sem kennararnir Magnús Helgason og Sigurður Ingólfsson ásamt fleirum skemmtu gestum með tónlist og ljóðalestri. Á Fljótsdalshéraði var einn þátttakandi útskrifaður, Daði Fannar Þórhallsson, og er þetta fyrsta útskrift StarfA á Héraði. Með Daða á myndinni er Erla Jónsdóttir, framkvæmdastjóri StarfA. 

Í Fjarðabyggð var „slúttað“ á Fáskrúðsfirði á kaffihúsinu Sumarlínu og þar var Heiðrún Ósk Ölversdóttir útskrifuð. Hún er einnig fyrsti nemandinn sem StarfA útskrifar frá Fjarðabyggð.

Á Fáskrúðsfjörð komu góðir gestir úr atvinnulífinu í heimsókn og kynntu fyrir þátttakendum möguleg starfstækifæri í framtíðinni. Á myndinni má sjá þau (f.v.) Jón Óskar hjá Brammer, Láru Eiríksdóttur hjá Fjarðaþrifum og Jón Hlöðversson hjá Gámaþjónustu Austurlands.

Starfsendurhæfin Austurlands vonar að þátttakendur njóti sumarfrísins og mæti endurnærðir í ágúst. Gert er ráð fyrir að StarfA taki upp þráðinn að nýju 17. Ágúst.   

Fb: Matreiðslunámskeið

 Minnum á matarreiðslunámskeið eftir hádegi miðvikudaginn 10. júní hjá Marlín. Byrjar klukkan 13. 

Unnið mikið í sjáfri mér

Eins og fram hefur komið á síðunni afhenti Samfélagssjóður Alcoa Starfsendurhæfingu Austurlands styrk upp á 8,9 milljónir króna á dögunum. Þegar styrkirnir voru afhentir vöktu athygli framsögur tveggja þátttakenda StarfA, þeirra Árna Þorsteinssonar frá Fjarðabyggð og Margrétar Elísabetar Andrésdóttur frá Fljótsdalshéraði þar sem þau lýstu reynslu sinni af þátttöku í StarfA. Ræðan sem Árni hélt er birt í fullri lengd hér neðra en í máli Margrétar kom m.a. fram að Starfsendurhæfingin hefur gert henni kleift að vinna mikið í sjálfri sér.  

"Í janúar 2008 var mér boðið að taka þátt í Starfsendurhæfingu Austurlands. Ég var með mánaðargamalt barn svo ég var efins þar sem ég var von að vera bara heima og í felum meira og minna síðan ég lenti í slysi í janúar 1996. Þetta var því mikil ákvörðun fyrir mig. Ég sá samt að þetta var einstakt tækifæri svo ég fór og hef ekki séð eftir því," sagði Margrét og bætir við: "Mikið starf er unnið hjá StarfA í einstaklingnum og margt í boði sem ég get ekki séð að maður myndi leita sér sjálfur ef maður var dottin úr vinnu og búin að loka sig inni. Starfsendurhæfingin hefur gert mér kleift að klára einingar í menntaskóla og taka lokapróf úr fimm fögum sem ég reyndi á sínum tíma en datt úr skólanum vegna veikinda."

Margrét sagði að henni hefði þótt ágætt að vera eins lengi í StarfA og henni þóknaðist en gerir sér þó fulla grein fyrir því að svo verður ekki. "Það eru fleiri  sem þurfa að njóta Starfsendurhæfingar Austurlands svo maður verður að leyfa þeim að komast að. Ég mun útskifast frá Starfa í desember 2009 og er ég búin að skrá mig í félagsliðanám við Menntaskólann á Egilsstöðum. Ég veit það með vissu að mér hefði aldrei dottið það í hug ef ég hefði ekki farið í Starfsendurhæfinguna."

 

Skráningafrestir í skólum!

Ágætu þátttakendur StarfA!

Við viljum minna þau ykkar á sem ætlið að nema við menntaskólana á Austurlandi næsta haust að skrá ykkur sem fyrst. Umsóknarfrestur hjá öllum menntaskólum rennur út 11. júní. Þau sem vilja eða þurfa aðstoð við skráninguna geta leitað til starfsmanna StarfA.

Minnum á fundinn!

Við minnum Fjarðabyggðarhópinn á fundinn í fyrramálið (miðvikudaginn 27. maí) en þar ætlar Auður Vala að fara yfir fyrirhugaða vorferð á fimmtudaginn.

Hokin af reynslu en með bakið beint

Fyrirlestur Árna Þorsteinssonar sem fluttur var á mánudaginn í síðustu viku þegar Samfélagssjóður Alcoa afhenti Starfsendurhæfingu Austurlands styrk upp á 8,9 milljónir króna. 

Kæru vinir,

Þegar ég var beðinn um að segja nokkur orð við þetta tækifæri fór gamalkunnur fiðringur um magann. Tilfinning sem hafði hreiðrað um sig  fyrir svo löngu og vildi ekki hverfa vegna þess að ég kunni ekki að vinna á henni. En nú hvarf tilfinningin eins og dögg fyrir sólu og glaður ákvað ég að verða við beiðninni og segja fáein orð fyrir mína hönd og míns kæra hóps. Hversvegna skyldi nú kvíðinn hafa gufað svona skyndilega upp?

Jú, vegna þess að ég er í endurhæfingu með yndislegu fólki og er að ná árangri. Ástæðan fyrir þátttöku minni í þessari vinnu er sú, að ég hafði verið án atvinnu í nokkra mánuði og var horfinn inn í ansi dimma veröld þunglyndis og vonleysis. Reyndar var ég búinn að glíma við þennan draug frá tvítugsaldri en steininn tók fyrst úr veturinn 2007 – 2008. Þá er það á útmánuðum 2008 að ég fæ símtal. Í símanum var frelsandi engill að nafni Erla Jónsdóttir sem bauð mér að taka þátt í starfsendurhæfingu sem hún var að koma á fót. Að sjálfsögðu fékk ég kvíðahnút í magann og var ekki, að mér fannst, tilbúinn í þennan slag. Það var svo miklu einfaldara og þægilegra að vera lokaður inni í sinni skel og hafa hana læsta. En sem betur fer kom brestur í skelina, ég skreið út og stend nú hér og hef aldrei liðið betur.

Þeir einstaklingar sem byrjuðu með mér eru eins misjafnir og þeir eru margir. Við höfum öll glímt við erfið veikindi, andleg sem líkamleg, afleiðingar slysa og neyslu. En saman myndum við heild sem við erum ákaflega stolt af í dag. Við upplifðum eflaust flest höfnun og fordóma vegna þekkingarleysis fólks á veikindum okkar. Við vissum jafnvel ekki sjálf hvað gekk að okkur.

Það var ekki upplitsdjarfur hópur sem kom saman í fyrsta sinn síðla vetrar 2008. Hvað vorum við eiginlega búin að koma okkur í? Fæstir þekktust nokkuð, það tók því talsverðan tíma að læra nöfnin og kynnast. Og þvílíkt mannval sem ég hef kynnst.
Hver og einn í þessum hópi er einstakur á sinn hátt. Kraftur og gleði einkennir hópinn, samkennd og umhyggja gagnvart náunganum.  Hlakka ég til á hverjum morgni að hitta fólkið mitt sem ég leyfi mér að kalla svo.

Það frábæra starf sem Erla er að vinna með sínu fólki er svo sannarlega að skila sér. Við erum í bóklegu námi, á verklegum námskeiðum og hlýðum á fyrirlestra um geðræna sjúkdóma. Við stundum hreyfingu og förum saman í gönguferðir og á kaffihús. Þrátt fyrir mikilvægi hins félagslega þáttar, samvinnu og samstöðu er markmiðið að sjálfsögðu að efla einstaklinginn og hjálpa honum út í lífið aftur til náms eða starfs. Þá get ég ekki látið hjá því líða að minnast á þau jákvæðu áhrif sem bati okkar hefur á fjölskyldur okkar og vini. Þar tala ég af reynslu og á þetta eflaust við um fleiri í okkar hópi.

Kæru vinir,

Við höfum öll skyldum að gegna gagnvart ástvinum okkar, samfélaginu og síðast en ekki síst gagnvart okkur sjálfum. Það er einnig skylda okkar að taka með gleði og áhuga á móti því sem Starfsendurhæfing Austurlands hefur upp á að bjóða. Þannig eflumst við sem einstaklingar, hoknir af reynslu en með bakið beint. Að síðustu vil ég fyrir hönd hópsins míns þakka Erlu og hennar fólki fyrir að vera það sem þau eru, einnig vil ég þakka frábærum kennurum fyrir þeirra leiðsögn og skemmtilegar samverustundir sem við eigum eftir að minnast með söknuði en jafnframt gleði.

Kærar þakkir.


Starfsendurhæfing Austurlands  |  Miðvangi 1-3  |  700 Egilsstöðum  |  S:471-2938