Starfsendurhæfing Austurlands í sumarfrí
Veturinn var annasamur hjá Starfsendurhæfingu Austurlands og sumarfríið því kærkomið. „Slúttað“ var með glæsibrag á Fljótsdalshéraði og í Fjarðabyggð fyrr í mánuðinum. Á Fljótsdalshéraði var farið út að borða og síðan var kíkt á menningarlífið í Sláturhúsinu þar sem kennararnir Magnús Helgason og Sigurður Ingólfsson ásamt fleirum skemmtu gestum með tónlist og ljóðalestri. Á Fljótsdalshéraði var einn þátttakandi útskrifaður, Daði Fannar Þórhallsson, og er þetta fyrsta útskrift StarfA á Héraði. Með Daða á myndinni er Erla Jónsdóttir, framkvæmdastjóri StarfA.
Í Fjarðabyggð var „slúttað“ á Fáskrúðsfirði á kaffihúsinu Sumarlínu og þar var Heiðrún Ósk Ölversdóttir útskrifuð. Hún er einnig fyrsti nemandinn sem StarfA útskrifar frá Fjarðabyggð.
Á Fáskrúðsfjörð komu góðir gestir úr atvinnulífinu í heimsókn og kynntu fyrir þátttakendum möguleg starfstækifæri í framtíðinni. Á myndinni má sjá þau (f.v.) Jón Óskar hjá Brammer, Láru Eiríksdóttur hjá Fjarðaþrifum og Jón Hlöðversson hjá Gámaþjónustu Austurlands.
Starfsendurhæfin Austurlands vonar að þátttakendur njóti sumarfrísins og mæti endurnærðir í ágúst. Gert er ráð fyrir að StarfA taki upp þráðinn að nýju 17. Ágúst.