Unnið mikið í sjáfri mér
Eins og fram hefur komið á síðunni afhenti Samfélagssjóður Alcoa Starfsendurhæfingu Austurlands styrk upp á 8,9 milljónir króna á dögunum. Þegar styrkirnir voru afhentir vöktu athygli framsögur tveggja þátttakenda StarfA, þeirra Árna Þorsteinssonar frá Fjarðabyggð og Margrétar Elísabetar Andrésdóttur frá Fljótsdalshéraði þar sem þau lýstu reynslu sinni af þátttöku í StarfA. Ræðan sem Árni hélt er birt í fullri lengd hér neðra en í máli Margrétar kom m.a. fram að Starfsendurhæfingin hefur gert henni kleift að vinna mikið í sjálfri sér.
"Í janúar 2008 var mér boðið að taka þátt í Starfsendurhæfingu Austurlands. Ég var með mánaðargamalt barn svo ég var efins þar sem ég var von að vera bara heima og í felum meira og minna síðan ég lenti í slysi í janúar 1996. Þetta var því mikil ákvörðun fyrir mig. Ég sá samt að þetta var einstakt tækifæri svo ég fór og hef ekki séð eftir því," sagði Margrét og bætir við: "Mikið starf er unnið hjá StarfA í einstaklingnum og margt í boði sem ég get ekki séð að maður myndi leita sér sjálfur ef maður var dottin úr vinnu og búin að loka sig inni. Starfsendurhæfingin hefur gert mér kleift að klára einingar í menntaskóla og taka lokapróf úr fimm fögum sem ég reyndi á sínum tíma en datt úr skólanum vegna veikinda."
Margrét sagði að henni hefði þótt ágætt að vera eins lengi í StarfA og henni þóknaðist en gerir sér þó fulla grein fyrir því að svo verður ekki. "Það eru fleiri sem þurfa að njóta Starfsendurhæfingar Austurlands svo maður verður að leyfa þeim að komast að. Ég mun útskifast frá Starfa í desember 2009 og er ég búin að skrá mig í félagsliðanám við Menntaskólann á Egilsstöðum. Ég veit það með vissu að mér hefði aldrei dottið það í hug ef ég hefði ekki farið í Starfsendurhæfinguna."