Skip to main content

"Með hjálp StarfA fór ég að ná tökum á eigin lífi"

Með hjálp Starfsendurhæfingar Austurlands (StarfA) fór ég að ná tökum á eigin lífi aftur og axla ábyrgð á eigin hamingju.

maggaByrjaði í StarfA

Ég heiti Margrét Sigurðardóttir er búsett á Egilsstöðum og er þriggja barna móðir. Ég byrjaði fyrst i StarfA veturinn 2010 og uppúr því hófst erfiðasta ferðalag sem ég hef lagt í. Ég ólst upp við mikinn alkóhólisma og mikla óreglu, báðir foreldrar mínir voru virkir í drykkju á mínum uppvaxtarárum og þar af leiðandi byrjaði ég rosalega ung að axla ábyrgð á öllu í kringum mig, meðal annars þremur yngri systkynum mínum.

Þegar ég var 16 ára kynntist ég barnsföður mínum sem ég á 2 eldri börnin með, hann glímdi við alkóhólisma og þunglyndi og var sú sambúð mjög erfið í þessi tæp 11 ár sem við bjuggum saman. Eftir skilnaðinn tók hann sitt eigið líf og varð löng og erfið vinna að takast á við það. Vorið 2012 komst ég að því að faðir minn hafði beitt miðdóttur mína kynferðisofbeldi, þá hrundi heimurinn alveg. Þetta er bara brot af mínum áföllum í gegnum tíðina og ég er bara 33ja ára.

Ég lofaði sjálfri mér að ég skildi tileinka mér allt sem var þar í boði

Ég hafði verið í Starfa frá vetrinum 2010 og var þar í eitt ár. Eftir það fór ég í vinnu og gekk alveg ágætlega eða það hélt ég. Ég byrjaði aftur haustið 2012 eftir áfallið með föður minn og dóttur, þá leitaði ég sjálf eftir aðstoð Starfa og fékk inngöngu strax. Fyrsta skiptið sem ég var í Starfa var ég kannski ekki alveg með hugann við það, ég leit á það frekar sem hvíld frá vinnumarkaði og mér, enda held ég að margir sem fara fyrst í enduhæfingarprógramm séu svolítið týndir með sjálfan sig og vita í raun ekki alveg hvert stefnir. Þegar ég kom inn aftur haustið 2012 lofaði ég sjálfri mér að ég skildi tileinka mér allt sem var þar í boði sem ég gerði svo, og uppúr því hófst langt og strembið ferðalag, sjálfsvinna er alls ekki auðveld en hún borgar best þegar upp er staðið. Ég hélt aldrei að ég fengi líf mitt til baka og bara mig sjálfa, en ég er mjög lífsglöð og opin persóna, alltaf stutt í grínið hjá mér og alltaf opin fyrir nýjungum. Með hjálp StarfA fór ég að ná tökum á eigin lífi aftur, axla ábyrgð á eigin hamingju þó ég viti nú að ég átti mestan part í því að hjálpa sjálfri mér. Með prógrammi frá Starfa var endalust úrval námskeiða og fyrirlestra, einnig fékk ég hjálp með hreyfingu en ég gerbreytti um lífstíl í veru minni hjá þeim. Ég ætlaði ekki að trúa hvað hreyfingin gat hjálpað mér mikið en fyrir var ég bundin við gigtarlyf og hjartalyf en í dag þarf ég sjaldan að taka þau.

Að vera laus við fordóma er þvílíkt frelsi og mikill léttir

Margir eiga það til að finna fyrir skömm yfir að fara í endurhæfingu, sérstaklega vegna geðrænna vandamála og var ég sjálf alls ekki laus við þá fordóma þegar ég byrjaði, ég fann fyrir skömm og fannst ég ekki eiga heima þarna en þegar ég leyfði mér að vera laus við fordóma gagnvart öðrum og sjálfri mér fann ég fyrir þvílíku frelsi og létti. Ég gat loksins farið að vinna í mér. Í dag er ég fordómalaus gagnvart öllu og það opnaði margar dyr fyrir mér að losna við þá.

Makinn minn og börn hafa fengið mig til baka og það er ómetanlegt

Í dag er á á mjög góðum stað í lífinu ég er í vinnu sem ég elska, en ég sé um mann-og geðræktarmiðstöð , ég dempdi mér í björgunasveitina og er mjög virk í henni auk þess sem ég er í stjórn Geðhjálpar Austurlands. Makinn minn og börnin hafa fengið mig til baka og það er ómetanlegt. Ég er ánægð hvar ég er stödd í lífinu en auðvitað koma upp tímar sem eru erfiðari en aðrir en með allri þeirri hjálp sem ég fékk er ég mikið betur í stakk búin að takast á við vandamál. Í dag lít ég á vandamál sem verkefni sem þarf að leysa. Ég er fordómalaus og ákveðin og sækist eftir því sem ég vil, ég demdi mér í nám með StarfA, náði að klára mest allt sem ég átti eftir, get því farið að sækja um háskóla en ég ætla í Félagsráðgjafann í framtíðinni. Í dag kann ég að leitast að því sem gleður mig og gefur mér lífsfyllingu, kann betur að koma mér úr aðstæðum sem hafa slæm áhrif á mig.

Lífið er dásamlegt

Í stuttum orðum lífið er dásamlegt og fullt af nýjungum og fjölbreytileika, maður þarf bara að sækjast eftir því sem gerir mann hamingjusaman J oooog alls ekki má gleyma að ég er dugleg að hrósa sjálfri mér fyrir sem ég gerði fyrir sjálfa mig, það lærði ég í gegnum StarfA.