Skip to main content

StarfA útskrifar í fyrsta skipti

Tímamót urðu í sögu Starfsendurhæfingar Austurlands (StarfA) í síðustu viku en þá voru útskrifaðir nemendur í fyrsta skipti. Alls luku 21 nemandi starfsendurhæfingu, tólf í Fjarðabyggð og níu á Fljótsdalshéraði. Flestir stefna á frekara nám.

Fimmtudagurinn í síðustu viku markaði tímamót í sögu StarfA sem hóf starfsemi sína í byrjun nóvember árið 2007 en þá var Erla Jónsdóttir ráðin framkvæmdastjóri og var auk þess eini starfsmaður StarfA. Myndaðir voru hópar á Fljótsdalshéraði, skömmu síðar í Fjarðabyggð og loks var myndaður hópur á Hornafirði fyrr á þessu ári. Alls byrjuðu þrjátíu og átta í starfsendurhæfingu á Mið-Austurlandi snemma árs 2008 og núna, tæpum tveimur árum síðar, hafa tuttugu og þrír þátttakendur lokið endurhæfingunni en tveir voru útskrifaðir síðastliðið vor.

Útskriftarnemar StarfA hafa marga fjöruna sopið á undanförnum mánuðum en endurhæfingin hefur m.a. verið fólgin í námi á framhaldsskólastigi, líkamsrækt, andlegri uppbyggingu, verklegri þjálfun auk þess sem boðið hefur verið upp á fræðsluerindi af ýmsum toga. Í ávarpi sem Erla flutti á útskriftinni rætti hún um mikilvægi þess að iðka stöðuga endurskoðun á starfseminni svo bæta megi hana og þróa.

„Á þessum fyrstu skrefum okkar í StarfA hafa oft verið hugleiðingar uppi um hvort við værum á réttri leið og hef ég sjálf stundum efast um réttmæti þess að vera með bóklegt nám á framhaldsskólastigi, þar sem margir þeirra sem að til okkar hafa komið eiga sögu um erfiðleika í námi frá fyrri tíð. Undanfarna daga hef ég hins vegar sannfærst um mikilvægi þess að gefa þessu sama fólki tækifæri til að takast á við nám við nýjar og breyttar aðstæður, að þau upplifi að þau geti lært. Það er ógleymanleg lífsreynsla að sjá hve margir hafa fengið áhuga á að mennta sig áfram. Það er stærsti sigurinn að mínu mati því mennt er máttur,“ sagði Erla en verulegur hluti þeirra sem útskrifuðust í síðustu viku hafa hug á áframhaldandi námi. Tveir nemendur fengu sérstaka viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í endurhæfingunni. Þetta voru þau Borghildur Jóna Árnadóttir í Fjarðabyggð og Hrafnkell Ásmundsson, búsettur á Fljótsdalshérði, en bæði nýttu þau til fullnustu alla þætti endurhæfingarinnar með frábærum árangri.

Eins og áður sagði var StarfA stofnuð í lok ársins 2007 fyrir tilstuðlan Sverris Albertssonar, framkvæmdastjóra Afls-Starfsgreinafélags. Að stofnunni komu síðan átján stofnfélagar á Austurlandi, sex sveitarfélög, þrír framhaldsskólar, stéttarfélög og aðrar stoðstofnanir.  Útskriftarhópur á Fljótsdalshéraði

Útskriftarhópur StarfA á Fljótsdalshéraði.

Útkriftarhópur StarfA í Fjarðabyggð

Útskriftarhópurinn í Fjarðabyggð ásamt starfsfólki StarfA.